Prenta hluta
17
Vítasvæði
Tilgangur reglu: Regla 17 er sérregla fyrir vítasvæði, sem eru vatnasvæði eða önnur svæði skilgreind af nefndinni, þar sem boltar týnast oft eða eru ósláanlegir. Gegn einu vítahöggi mega leikmenn nota sérstakar lausnaraðferðir til að leika bolta utan vítasvæðisins.
17
Vítasvæði
17.1

Möguleikar vegna bolta innan vítasvæðis

17.1a/1
Bolti týndur, annaðhvort innan vítasvæðis eða í óeðlilegum vallaraðstæðum við vítasvæðið
Ef bolti leikmanns hefur ekki fundist á svæði þar sem vítasvæði og óeðlilegar vallaraðstæður liggja saman verður leikmaðurinn að beita skynsamlegu mati (regla 1.3b(2)) þegar staðsetning boltans er ákvörðuð. Ef slíkt skynsamlegt mat leiðir til þess að vitað er eða nánast öruggt að boltinn hafi hafnað í öðru hvoru svæðanna en jafn miklar líkur eru á því í hvoru þeirra verður leikmaðurinn að taka lausn samkvæmt reglu 17.
17.1d(3)/1
Leikmaður má mæla þvert yfir vítasvæði þegar hann tekur hliðarlausn
Við að taka hliðarlausn þegar boltinn skar síðast mörk rauðs vítasvæðis sem er mjög mjótt er hugsanlegt að leikmaðurinn geti mælt tvær kylfulengdir frá viðmiðunarstaðnum þvert yfir vítasvæðið við að ákvarða stærð lausnarsvæðisins. Hins vegar tilheyrir sá hluti vítasvæðisins sem er innan kylfulengdanna tveggja sem mældar voru frá viðmiðunarstaðnum ekki lausnarsvæðinu.
17.1d(3)/2
Leikmaður lætur bolta falla samkvæmt mati á því hvar boltinn skar síðast mörk vítasvæðis. Matið reynist svo rangt
Ef staðurinn þar sem bolti skar síðast mörk vítasvæðis er ekki þekktur verður leikmaðurinn að beita skynsamlegu mati til að ákvarða viðmiðunarstaðinn. Samkvæmt reglu 1.3b(2) verður skynsamlegt mat leikmannsins samþykkt, jafnvel þótt viðmiðunarstaðurinn reynist síðar hafa verið rangur. Hins vegar getur komið í ljós áður en leikmaðurinn slær högg að viðmiðunarstaðurinn sé rangur og þá verður að leiðrétta mistökin. Til dæmis í höggleik er nánast öruggt að bolti leikmanns er innan rauðs vítasvæðis. Leikmaðurinn áætlar hvar boltinn skar síðast mörk vítasvæðisins, eftir að hafa ráðfært sig við aðra leikmenn í ráshópnum. Leikmaðurinn tekur síðan hliðarlausn og lætur bolta falla innan lausnarsvæðisins, út frá þeim viðmiðunarstað. Áður en hann slær högg að boltanum sem hann lét falla finnur einn leikmannanna í ráshópnum upphaflega bolta leikmannsins innan vítasvæðisins, á stað sem bendir til að boltinn hafi síðast skorið mörk vítasvæðisins um það bil 20 metrum nær holunni en viðmiðunarstaðurinn sem leikmaðurinn áætlaði. Þar sem þetta verður ljóst áður en leikmaðurinn sló högg að boltanum sem hann lét falla verður hann að leiðrétta mistökin, samkvæmt reglu 14.5 (Að leiðrétta mistök við að skipta um bolta, leggja bolta aftur, láta bolta falla og leggja bolta). Til þess verður leikmaðurinn að fara að samkvæmt reglu 17.1d eða reglu 17.2a með tilliti til rétts viðmiðunarstaðar og má nota hvaða lausnaraðferð sem hann kýs samkvæmt þeirri reglu (sjá reglu 14.5b(2)).
17.2

Möguleikar eftir að bolta er leikið af vítasvæði

17.2b/1
Dæmi um lausnarkosti sem regla 17.2b heimilar
Á myndinni leikur leikmaður af teignum og boltinn stöðvast innan rauða vítasvæðisins á stað A. Leikmaðurinn velur að leika úr vítasvæðinu og slær boltann á stað B sem er út af. Leikmaðurinn má taka fjarlægðarlausn samkvæmt reglu 18.2b með því að nota stað A sem viðmiðunarstað fyrir lausnarsvæðið og myndi næst slá 4. högg sitt. Ef leikmaðurinn tekur fjarlægðarlausn með því að láta bolta falla innan vítasvæðisins og velur síðan að leika boltanum ekki boltanum sem hann lét falla þar sem hann stöðvaðist:
  • Má leikmaðurinn annaðhvort taka aftur-á-línu lausn hvar sem er á punktalínunni X-Y utan vítasvæðisins samkvæmt reglu 17.1d(2), taka hliðarlausn og nota X sem viðmiðunarpunkt samkvæmt reglu 17.1d(3) eða leika öðrum bolta þar sem hann sló síðasta högg utan vítasvæðisins (í þessu tilfelli af teignum) samkvæmt reglu 17.2a(2).
  • Velji leikmaðurinn einhvern þessara möguleika, þá fær hann eitt vítahögg til viðbótar, þ.e. samtals tvö vítahögg: eitt högg fyrir fjarlægðarlausnina og annað fyrir að taka aftur-á-línu lausn, hliðarlausn eða leika öðrum bolta þar sem hann sló síðasta högg sitt utan vítasvæðisins (í þessu tilfelli af teignum). Leikmaðurinn væri þá að leika sitt 5. högg ef hann velur einhvern þessara kosta.
Leikmaðurinn má einnig taka slíka lausn beint utan vítasvæðisins án þess að láta bolta fyrst falla innan vítasvæðisins, en fengi samt samtals tvö vítahögg.
SKOÐA FLEIRA