Prenta hluta
23
Fjórleikur
Tilgangur reglu: Regla 23 fjallar um fjórleik (sem er ýmist leikinn sem holukeppni eða höggleikur), þar sem samherjar keppa sem lið og hvor samherji leikur sínum bolta. Skor liðsins á holu er lægra skor samherjanna á þeirri holu.
23
Fjórleikur
23.2

Skor í fjórleik

23.2a/1
Úrslit holu þegar engum bolta er leikið í holu á réttan hátt
Ef enginn leikmaður lýkur holu í fjórleik holukeppni vinnur það lið holuna sem síðast tók upp bolta sinn eða fékk síðast frávísun á holunni. Til dæmis er liðið A-B að leika gegn liði C-D í fjórleik holukeppni. Á einni holunni leikur leikmaður A bolta leikmanns C fyrir mistök og leikmaður C leikur bolta leikmanns A. Báðir leika í holu með bolta hins. Leikmaður B og leikmaður D slá báðir inn í vítasvæði og taka upp bolta sína. Við leik á næstu holu uppgötva leikmaður A og leikmaður C að þeir hafa leikið röngum bolta á síðustu holu. Þá úrskurðast að leikmaður A og leikmaður C fá frávísun á síðustu holu. Ef leikmaður B tók sinn bolta upp á undan leikmanni D vinnur liðið C-D holuna og ef leikmaður D tók sinn bolta upp á undan leikmanni B vinnur liðið A-B holuna. Ef ekki er hægt að ákvarða hvor leikmaðurinn tók sinn bolta upp fyrst ætti nefndin að úrskurða að holan hafi endað jöfn.
23.2b/1
Skor á holu verður að vera skráð á réttan samherja
Í fjórleik höggleiks þurfa samherjarnir að skila skorkorti með réttu skori á holum og sem tengjast réttum samherja. Eftirfarandi eru dæmi um skor í fjórleik, m.t.t. hvernig skorkortið er fyllt út og því skilað af liðinu A-B:
  • Í forgjafarkeppni leika bæði leikmaður A og leikmaður B í holu á 4 höggum á tiltekinni holu þar sem leikmaður B fékk forgjafarhögg en ekki leikmaður A. Ritarinn skráði brúttóskorið 4 hjá leikmanni A, ekkert brúttóskor hjá leikmanni B og nettóskor liðsins sem 3. Skorkortinu var skilað þannig til nefndarinnar. Niðurstaðan er að skorið 4 hjá leikmanni A er skor liðsins á holunni. Nefndin er sá aðili sem einn ber ábyrgð á að beita forgjafarhöggum. Skor liðsins er 4 eins og það er merkt leikmanni A. Skráning ritarans á nettóskorinu 3 skiptir ekki máli.
  • Á tiltekinni holu tekur leikmaður A bolta sinn upp og leikmaður B leikur í holu á 5 höggum. Ritarinn skráir skorið 6 hjá leikmanni A og skorið 5 hjá leikmanni B. Skorkortinu er skilað þannig. Þetta er vítalaust því skor þess samherja sem gildir fyrir liðið á holunni er rétt skráð.
  • Á tiltekinni holu tekur leikmaður A bolta sinn upp og leikmaður B leikur í holu á 4 höggum. Af slysni skráir ritarinn skorið 4 hjá leikmanni A og ekkert skor hjá leikmanni B. Skorkortinu er skilað þannig. Niðurstaðan er að liðið fær frávísun því skor liðsins á þessari holu er merkt leikmanni A en leikmaður A lauk ekki leik á holunni.
23.2b/2
Beiting undantekningar við reglu 3.3b(3) þegar röngu skorkorti er skilað
Eftirfarandi dæmi sýna hvernig beita á reglum 3.3b(3) (Rangt skor á holu) og 23.2b. Í öllum dæmunum skilar liðið A-B skorkorti með röngu skori á holu og mistökin uppgötvast eftir að skorkortinu er skilað, en áður en keppninni er lokið.
  • Leikmaður A skilar skorinu 4 og leikmaður B skilar skorinu 5. Leikmaður A snerti sand í glompu með kylfu í aftursveiflu fyrir högg og vissi af vítinu fyrir brot á reglu 12.2b(1) (Takmarkanir á að snerta sand í glompu) áður en hann skilaði skorkortinu, en sleppti vítinu á skorkorti sínu. Undantekningin við reglu 3.3b(3) á ekki við, því leikmaður A vissi af vítinu og liðið fær frávísun samkvæmt reglu 23.2b.
  • Leikmaður A skilar skorinu 4 og leikmaður B skilar skorinu 5. Leikmaður A braut reglu 12.2b(1) með því að snerta sand í æfingasveiflu í glompu en hvorugur samherjanna gerði sér grein fyrir vítinu áður en skorkortinu var skilað. Undantekningin við reglu 3.3b(3) á við. Þar sem skor leikmanns A gildir fyrir liðið á holunni verður nefndin að beita almenna vítinu á skor leikmanns A á holunni, fyrir brot á reglu 12.2b(1). Skor liðsins á holunni er því 6. Reglurnar heimila liðinu því aðeins að láta skor leikmanns B gilda ef skor beggja samherjanna var það sama á holunni (regla 23.2b(2)).
  • Leikmaður A skilar skorinu 4 og leikmaður B skilar skorinu 6. Leikmaður A hreyfði bolta sinn þegar hann fjarlægði lausung og braut þar með reglu 15.1b. Leikmaður A lagði boltann aftur en vissi ekki af vítahögginu. Leikmaður B varð vitni að þessu og vissi af vítinu. Skorkortinu er skilað með skorinu 4 fyrir leikmann A og 6 fyrir leikmann B. Skor leikmanns A hefði átt að vera 5, með vítahögginu. Undantekningin við reglu 3.3b(3) á ekki við því leikmaður B vissi af atvikinu og vítinu sem átti að fylgja og hefði átt að vera innifalið í skori leikmanns A. Liðið fær frávísun samkvæmt reglu 23.2b.
  • Leikmaður A og leikmaður B skila skorinu 4. Leikmaður A lyfti bolta sínum til að þekkja hann á almenna svæðinu en óþarft var að lyfta boltanum til að þekkja hann. Hvorki leikmaður A né leikmaður B gerðu sér grein fyrir vítinu fyrir brot á reglu 7.3 áður en skorkortinu var skilað. Þar sem bæði skorin eru eins á skorkortinunefndin velja hvort skorið sem er. Ef nefndin hafði valið skor leikmanns A, sem síðar kom í ljós að var rangt, mun nefndin velja skor leikmanns B, sem er rétt, og þetta er vítalaust fyrir liðið.
23.4

Annar eða báðir samherjar mega koma fram fyrir hönd liðsins

23.4/1
Að ákvarða forgjafarhögg í holukeppni ef annar leikmaðurinn getur ekki keppt
Ef, í fjórleik holukeppni með forgjöf, leikmaðurinn með lægstu forgjöfina getur ekki leikið, er ekki litið fram hjá honum, að því gefnu að hann muni hugsanlega hefja leik fyrir liðið á milli leiks tveggja hola. Það merkir í holukeppni áður en einhver leikmaður úr öðru hvoru liðinu hefur hafið leik á holu. Forgjafarhöggin eru reiknuð eins og allir fjórir leikmennirnir væru viðstaddir. Ef röng forgjöf er gefin upp fyrir leikmanninn sem er fjarverandi gildir regla 3.2c(1) (Að ákvarða forgjöf).
23.6

Leikröð liðs

23.6/1
Að fyrirgera rétti sínum til að leika í þeirri röð sem lið telur best
Ef lið í fjórleik holukeppni segir eða gefur í skyn að sá leikmaður liðsins sem á boltann sem er lengst frá holunni muni ekki ljúka holunni hefur sá leikmaður fyrirgert rétti sínum til að ljúka holunni og liðið má ekki breyta þeirri ákvörðun eftir að mótherjinn hefur leikið. Til dæmis er lið A-B að leika gegn liði C-D í fjórleik holukeppni. Allir boltarnir fjórir eru á flötinni, leikmenn A, B og D hafa slegið tvö högg en leikmaður C fjögur. Boltar leikmanns A og leikmanns C eru um 10 fet frá holunni, bolti leikmanns B tvö fet frá holunni og bolti leikmanns D þrjú fet frá holunni. Leikmaður C tekur sinn bolta upp. Leikmaður A leggur til að leikmenn B og D leiki. Eftir að leikmaður D hefur leikið hefur leikmaður A fyrirgert rétti sínum til að leika og skor hans getur ekki gilt fyrir liðið (t.d. ef leikmaður B missir sitt pútt). Niðurstaðan yrði önnur ef leikmaður B hefði verið lengra frá holunni en leikmaður D. Ef leikmaður B púttar fyrst og missir púttið hefði leikmaður A enn átt rétt á að ljúka holunni ef hann leikur áður en leikmaður D leikur.
23.6/2
Samherjar mega ekki tefja leik um of þegar þeir leika í þeirri röð sem hentar þeim best
Eftirfarandi eru dæmi um aðstæður þar sem samherjar liðs A-B leika í þeirri röð sem þeir telja best en kunna að fá víti samkvæmt reglu 5.6a fyrir óhæfilega töf:
  • Teighögg leikmanns A á par 3 holu, sem leika þarf yfir vítasvæði, stöðvast innan vítasvæðisins en teighögg leikmanns B stöðvast á flötinni. Liðið fer að flötinni án þess að leikmaður A leiki bolta samkvæmt reglunni um vítasvæði. Leikmaður B púttar fjórum sinnum áður en hann lýkur holunni. Leikmaður A ákveður þá að yfirgefa flötina, fara aftur á teiginn og setja annan bolta í leik.
  • Eftir teighöggin er bolti leikmanns A 220 metra frá holunni og bolti leikmanns B er 240 metra frá holunni. Leikmaður A slær annað högg sitt áður en leikmaður B slær. Bolti leikmanns A stöðvast 30 metra frá holunni og liðið ákveður að láta leikmann A ganga að sínum bolta og leika þriðja högg sitt.
23.6/3
Hvenær mótherji getur afturkallað högg liðs í holukeppni
Þegar báðir leikmenn liðs leika utan teigsins í fjórleik holukeppni má einungis afturkalla síðara höggið samkvæmt reglu 6.1b. Til dæmis leikur lið A-B gegn liði C-D í fjórleik holukeppni. Ef leikmenn A og B leika báðir utan teigsins, fyrst leikmaður A og síðan leikmaður B getur lið C-D afturkallað högg leikmanns B en ekki högg leikmanns A. Regla 6.1b krefst þess að afturköllun höggs sé gerð tímanlega. Þetta á líka við ef bæði leikmaður A og leikmaður B léku þegar annaðhvort leikmaður C eða leikmaður D áttu að leika á holunni.
23.7

Samherjar mega deila kylfum

23.7/1
Samherjar mega halda áfram að gefa ráð og samnýta kylfur eftir að samhliða leikjum er lokið
Þegar fjórleikur og tvímenningur er leikinn samhliða í holukeppni eru leikmenn liðs ekki lengur samherjar þegar fjórleiknum lýkur. Hins vegar mega leikmennirnir sem voru samherjar halda áfram að gefa hvor öðrum ráð og samnýta kylfur það sem eftir er beggja tvímenninganna. Til dæmis er lið A-B að leika gegn liði C-D í fjórleik holukeppni og samtímis er leikin tvímenningur þar sem leikmaður A leikur gegn leikmanni C og leikmaður B gegn leikmanni D. Báðir leikirnir eru 18 holur. Leikmenn A og B samnýta 14 kylfur sem leikmaður A kom með. Ef fjórleiknum lýkur á 16. holu en báðir tvímenningarnir eru jafnir mega leikmenn A og B halda áfram að nota kylfurnar sem þeir völdu til leiks (samnýttu kylfurnar) og gefa hvor öðrum ráð, þrátt fyrir að leikmaður A og leikmaður B séu ekki lengur samherjar.
23.8

Takmarkanir á að leikmaður standi aftan við samherja þegar högg er slegið

23.8/1
Beiting refsingar þegar leikmaður stendur á eða nærri framlengingu leiklínu fyrir aftan samherjann
Í fjórleik, þegar leikmaður stendur á eða nálægt framlengingu leiklínu samherja síns andstætt reglu 10.2b(4) eða 23.8, þá ræðst hvort vítum sé beitt á ástæðum þess að leikmaðurinn stóð þar, og þá hvort brot átti sér stað, hvort annar hvor leikmaðurinn eða samherjinn fékk hjálp með brotinu. Dæmi:
  • Leikaðurinn fær almenna vítið samkvæmt reglu 23.8 ef hann stóð á eða nálægt framlengingu leiklínunnar til að hjálpa sjálfum sér við að slá næsta högg (svo sem að fá upplýsingar um hvernig næsta pútt hans muni brotna byggt á hvernig bolti samherjans brotnaði á flötinni).
  • Samherjinn fær almenna vítið samkvæmt reglu 10.2b(4) ef leikmaðurinn stóð á takmarkandi svæðinu til að stilla upp samherjanum fyrir hæsta högg (sammherjans) og höggið var slegið án þess að bæði leikmaðurinn og samherjinn færu úr stöðum sínum áður.
  • Ef leikmaðurinn stóð í takmarkandi svæðinu til að stilla samherjanum upp fyrir næsta högg (samherjans) og með því að gera það sér hann einnig hvernig hans (leikmannsins) næsta högg gæti brotnað á flötinni, fá bæði leikmaðurinn og samherjinn almenna vítið. Þetta er vegna þess að brot samherjans á reglu 10.2b(4) hjálpaði einnig leikmanninum, svo leikmaðurinn fær sama vítið (sjá reglu 23.9a(2)). (Nýtt)
23.9

Hvenær víti nær aðeins til annars samherjans eða til beggja samherjanna

23.9a(2)/1
Dæmi um að brot leikmanns aðstoðar við leik samherja
Bæði í fjórleik holuheppni og höggleik, þegar brot leikmanns á reglu hjálpar einnig samherjanum, fær samherjinn sama vítið. Eftirfarandi eru dæmi þar sem báðir samherjar liðs A-B fá sama víti:
  • Lið A-B leikur gegn liði C-D. Bolti leikmanns B er nærri holunni og getur þannig aðstoðað leikmann A við að miða sitt pútt. Leikmaður C vill að leikmaður B merki staðsetningu bolta síns og lyfti honum. Leikmaður B neitar að lyfta boltanum og leikmaður A púttar með bolta leikmanns B þar sem hann aðstoðar við miðið. Leikmaður B fær almenna vítið samkvæmt reglu 15.3a (Bolti á flötinni aðstoðar við leik) fyrir að lyfta ekki boltanum sem getur aðstoðað við leik og þar sem brotið aðstoðaði leikmann A fær leikmaður A einnig almenna vítið.
  • Bolti leikmanns A er út af og leikmaður A ákveður að ljúka ekki holunni. Bolti leikmanns B er í svipaðri fjarlægð frá holunni. Leikmaður A lætur bolta falla nærri bolta leikmanns B og leikur honum á flötina og aðstoðar þannig B. Þar sem holunni er ekki lokið og úrslit holunnar liggja ekki fyrir telst áframhaldandi leikur A vera æfing, í andstöðu við reglu 5.5a (Engin æfingahögg á meðan hola er leikin). Þar sem æfing leikmanns A aðstoðaði leikmann B fær leikmaður B einnig almenna vítið.
23.9a(2)/2
Dæmi um að brot leikmanns komi niður á leik mótherja
Ef brot leikmanns í fjórleik holukeppni kemur niður á leik mótherjans fær samherji leikmannsins sama víti. Til dæmis er lið A-B að leika gegn liði C-D í fjórleik holukeppni. Leikmaður A gefur upp rangan höggafjölda sinn við annaðhvort leikmann C eða leikmann D en allir leikmennirnir fjórir geta enn unnið holuna. Lið C-D skipuleggur leik sinn út frá þessum upplýsingum og annar þeirra slær högg. Leikmaður A fær almenna vítið samkvæmt reglu 3.2d(1) (Að upplýsa mótherja um höggafjölda) fyrir að upplýsa ekki um réttan höggafjölda. Leikmaður B fær sama víti því brotið kom niður á leik mótherjanna. Því tapar liðið A-B holunni.
23.9a(2)/3
Að gefa upp rangan höggafjölda eða upplýsa mótherja ekki um víti telst aldrei skaða mótherjann þegar leikmaður er ekki í baráttu um holuna
Þegar leikmaður í fjórleik holukeppni er ekki lengur í baráttu á holu og hann gefur annaðhvort upp rangan höggafjölda eða upplýsir mótherja ekki um víti telst það aldrei skaða mótherjann því skor leikmannsins á holunni mun ekki skipta máli í leiknum. Til dæmis er lið A-B að leika gegn liði C-D í fjórleik holukeppni. Leikmaður A fær eitt högg í víti og segir mótherjunum ekki frá því. Ef leikmaður B síðan lýkur holu áður en annað hvort leikmaður C eða leikmaður D slær annað högg eða framkvæmir svipaða athöfn og skor leikmanns B er lægra en leikmanns A gæti hafa orðið án beitingu vítisins, telst leikmaður A ekki vera hluti af keppninni og hann fær einungis frávísun frá holunni samkvæmt reglu 3.2d.
SKOÐA FLEIRA