Prenta hluta
13
Flatir
Tilgangur reglu: Regla 13 er sérregla um flatir. Flatir eru sérstaklega gerðar til að leika boltanum eftir jörðinni og einnig er flaggstöng í holunni á hverri flöt. Því gilda nokkrar sérreglur um flatir, frábrugðnar reglum fyrir aðra hluta vallarins.
13
Flatir
13.1

Athafnir sem eru leyfðar eða skyldugar á flötum

13.1c
Lagfæringar leyfðar á flötinni
  • Sjá skýringar 8.1b/6 varðandi hvenær lagfæra má skemmd sem er að hluta á flötinni og að hluta utan hennar.
13.1c(2)/1
Skemmd hola telst skemmd á flötinni
Fjallað er um skemmdir á holunni í reglu 13.1c, sem hluta skemmda á flötinni. Leikmaðurinn má lagfæra skemmda holu, nema skemmdin sé vegna eðlilegs slits. Regla 13.1c  bannar að slíkar skemmdir séu lagaðar. Til dæmis, ef holan skemmist við að fjarlægja flaggstöngina má leikmaðurinn laga holuna samkvæmt reglu 13.1c, jafnvel þótt skemmdin hafi breytt lögun holunnar. Hins vegar, ef hola hefur skemmst og leikmaðurinn getur ekki lagfært hana (svo sem ef ekki er hægt að gera holuna hringlaga aftur) eða ef eðlilegt slit veldur því að holan er ekki lengur kringlótt, ætti leikmaðurinn að óska eftir því við nefndina að holan verði löguð.
13.1c(2)/2
Leikmaður má óska aðstoðar nefndarinnar þegar hann getur ekki lagfært skemmd á flötinni
Ef leikmaðurinn er ófær um að lagfæra skemmdir á flötinni, svo sem dæld eftir kylfu eða gamlan holutappa sem hefur sokkið, má leikmaðurinn óska eftir því við nefndina að skemmdin verði löguð. Ef nefndin getur ekki lagfært skemmdina og bolti leikmannsins er á flötinni getur nefndin íhugað að veita leikmanninum lausn samkvæmt reglu 16.1, með því að skilgreina skemmda svæðið grund í aðgerð.
13.1d(2)/1
Leggja verður bolta aftur ef hann hreyfist eftir að hafa verið lagður til að taka lausn
Bolti leikmanns er á flötinni og leikmaðurinn hefur truflun frá óeðlilegum vallaraðstæðum. Leikmaðurinn ákveður að taka vítalausa lausn samkvæmt reglu 16.1d. Ef næsti staður fyrir fulla lausn er á flötinni, þá eftir að boltinn hefur verið lagður á staðinn, er litið svo á að honum hafi verið lyft og hann lagður aftur samkvæmt reglu 13.1d(2). Til dæmis, bolti leikmanns er í tímabundnu vatni á flötinni. Leikmaðurinn ákveður að taka lausn og leggja boltann á næsta stað fyrir fulla lausn, sem er á flötinni. Þegar leikmaðurinn undirbýr sig fyrir höggið valda náttúruöflin því að boltinn hreyfist. Leikmaðurinn verður að leggja boltann aftur á staðinn sem var nálægasti staður fyrir fulla lausn. Hins vegar ef næsti staður fyrir fulla lausn er á almenna svæðinu og boltinn hreyfist af völdum náttúruaflanna eftir að hafa verið lagður á þennan stað, verður að leika honum frá nýja staðnum nema regla 9.3, undantekning 2 eigi við. 
13.1e/1
Ekki má vísvitandi prófa yfirborð neinnar flatar
Regla 13.1e bannar leikmanni tvær tilteknar athafnir á flötinni eða á rangri flöt, í þeim tilgangi að afla upplýsinga um hvernig boltinn kynni að rúlla á flötinni. Reglan bannar leikmanni ekki aðrar athafnir, jafnvel þótt þær séu gerðar í þeim tilgangi að prófa flötina eða þótt bönnuðu athafnirnar séu framkvæmdar fyrir slysni. Eftirfarandi er dæmi um athafnir sem fela í sér brot á reglu 13.1e:
  • Leikmaður ýfir eða skrapar grasið á flötinni til að ákvarða hvernig grasið liggur.
Eftirfarandi eru dæmi um athafnir sem væru ekki brot á reglu 13.1e:
  • Leikmaður gefur mótherja sínum næsta pútt og slær boltann í burtu á sömu línu og leikmaðurinn kann síðan að pútta eftir, en þó ekki í þeim tilgangi að afla upplýsinga um flötina.
  • Leikmaður leggur lófa sinn á yfirborð flatarinnar á leiklínu sinni til að meta hversu rök flötin er. Þótt leikmaðurinn geri það til að prófa flötina er þetta ekki bannað samkvæmt reglu 13.1e.
  • Leikmaður nuddar bolta á flötinni til að hreinsa mold af honum.
13.2

Flaggstöngin

13.2a(1)/1
Leikmaður á rétt á að hafa flaggstöngina í þeirri stöðu sem síðasti ráshópur skildi við hana
Leikmaður á rétt á að leika völlinn eins og hann kemur að honum, þar á meðal staðsetningu flaggstangarinnar eins og ráshópurinn á undan skildi við hana. Til dæmis, ef ráshópurinn á undan skildi við flaggstöngina þannig að hún hallar frá leikmanninum á leikmaðurinn rétt á að pútta með flaggstöngina í þeirri stöðu, telji hann það sér hagstætt. Ef annar leikmaður eða kylfuberi réttir flaggstöngina af í holunni má leikmaðurinn hafa hana þannig eða láta setja flaggstöngina aftur í upphaflega stöðu.
13.2a(4)/1
Setja má aftur á fyrri stað flaggstöng sem ekki var gætt en var fjarlægð án leyfis leikmannsins
Ef leikmaður velur að leika með flaggstöngina í holunni og annar leikmaður fjarlægir flaggstöngina úr holunni án leyfis leikmannsins má láta setja flaggstöngina aftur í holuna þótt bolti leikmannsins sé á hreyfingu. Hins vegar, ef athöfn hins leikmannsins var brot á reglu 13.2a(4) losnar hann ekki undan víti þótt hann setji flaggstöngina aftur í holuna.
13.2b(1)/1
Leikmaður má slá högg á meðan hann heldur á flaggstönginni
Regla 13.2b(1) leyfir leikmanni að slá högg með annarri höndinni þegar hann heldur á flaggstönginni í hinni höndinni. Þó má leikmaðurinn ekki nota flaggstöngina til að styðja sig á meðan hann slær högg (regla 4.3a). Til dæmis má leikmaður:
  • Fjarlægja flaggstöngina úr holunni með annarri höndinni áður en hann púttar og halda á henni á meðan hann slær högg með hinni höndinni.
  • Gæta flaggstangarinnar í holunni með annarri höndinni áður en og á meðan hann púttar með hinni höndinni. Á meðan eða eftir að hann slær högg með annarri höndinni má hann fjarlægja flaggstöngina úr holunni en má ekki vísvitandi láta boltann hitta flaggstöngina.
13.3

Bolti yfir holubrún

13.3a/1
Merking eðlilegs tíma fyrir leikmann að fara að holunni
Að ákveða mörk eðlilegs tíma til að fara að holunni fer eftir aðstæðum varðandi höggið og felur í sér tíma vegna eðlilegra eða ósjálfráðra viðbragða leikmannsins við því að boltinn fari ekki í holuna. Til dæmis getur leikmaður hafa slegið högg langt frá flötinni og það getur tekið hann nokkrar mínútur að komast að holunni á meðan aðrir leikmenn slá sín högg og allir ganga að flötinni. Eða, leikmaðurinn þarf að fara lengri leið að holunni til að ganga ekki í leiklínu annars leikmanns á flötinni.
13.3b/1
Hvað gera á þegar bolti sem er yfir holubrún hreyfist við að leikmaðurinn fjarlægir flaggstöngina
Ef boltinn sem slútir yfir holuna hreyfist þegar leikmaðurinn fjarlægir flaggstöngina verður hann að fara þannig að:
  • Ef vitað er eða nánast öruggt að boltinn hreyfðist við að leikmaðurinn fjarlægði flaggstöngina er boltinn lagður aftur á holubrúnina og regla 13.3b á við. Þannig á biðtíminn samkvæmt reglu 13.3a ekki lengur við, því litið er svo á að boltinn sé kyrrstæður. Þetta er vítalaust gagnvart leikmanninum, þar sem flaggstöngin er hreyfanleg hindrun (regla 15.2a(1)).
  • Ef hreyfing boltans orsakaðist ekki af því að leikmaðurinn fjarlægði flaggstöngina og boltinn fellur í holuna á regla 13.3a við.
  • Ef boltinn hreyfist af völdum náttúruaflanna á nýjan stað sem ekki slútir yfir holuna, en ekki vegna þess að flaggstöngin var fjarlægð, er það vítalaust og leika verður boltanum frá nýja staðnum (regla 9.3).
SKOÐA FLEIRA